12.11.2007 | 21:18
Meira og meira og stærra og meira
Heimurinn okkar er sífellt að minnka á meðan frelsi okkar til neyslu eykst.
Þar sem ég sat með heiminn við fingurgómana datt mér í hug nokkrir hlutir sem breyst hafa í gegnum tíðina. Þessi hugleiðing er komin til vegna þess að um þessar mundir er ég að vinna að kvikmyndaverkefni og er umrkingdur tölvum, spólum, myndavélum og hörðum diskum.
Þegar móðir mín, á sínum tíma, keypti sér fyrstu heimilistölvuna sína var harði diskurinn á henni heil hundrað megabæt. Slíkt hafði ekki sést áður og þótti geymslugeta tölvunnar ótrúleg. Tölvan hennar mömmu var með stærsta harða disk í hverfinu. Ég hélt að maður myndi aldrei í lífinu hafa þörf fyrir meira.
Núna umkringdur græum tel ég eitt og hálft terabæt af geymsluplássi, og vantar samt pláss.
Í skeifunni reis leikfangaversun, gríðarstór með mörgum hillum. Dót sem enst gæti mörgum póstnúmerum í margar kynslóðir. Nú fyrir skömmu opnaði toys´R´us í mörg þúsund fermetrum en það er ekki nóg því örfáum dögum síðar opnaði önnur dótabúð skammt frá sem er ennþá stærri og ber ennþá heimskulegra nafn.
Einu sinni fórum við strákarnir á hverjum laugardegi heim til vinar okkar, söfnuðumst þar saman og horfðum á heman þætti sem hann hafði tekið upp af stöð 2. Enginn okkar nema hann var með stöð 2 og fæstir áttu jafnvel myndbandstæki.
Núna eru vel flestir með fleiri en tvö sjónvarpstæki á heimilinu og í þeim fjöldan allan af sjónvarpsstöðvum eða mörg margmiðlunartæki tengd við svo aldrei sé stund sem fari til spillis af díóðunum.
Svo er það blessuð bílaeignin en það var eitt sinn tími þar sem eitt ökutæki var feikinóg fyrir eitt heimili, jafnvel þótt þar byggju fleiri en þrír. Nú á hver einasti maður með ökuréttindi á eigin bíl, og jafnvel nokkrir sem eru ekki einu sinni með prófið sitt.
Ég er alls ekki að segja að allar þessar breytingar séu slæmar, þvert á móti. Ég elska DVD, Playstation og Discovery.
Allir hefðu samt gott af því, sérstaklega í skammdeginu, að kveikja bara á kertum, setjast niður og spila ólsen með sínum nánustu.
Svona old school.
Góðar stundir.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.