Færsluflokkur: Bloggar

Ánægja og betrumbæting.

Já maður er bara nokkuð sáttur við litla lífið þessa dagana og hef að því tilefni ákveðið að reyna bara að halda áfram og gera það enn betra.

Eins og svo margir samlandar mínir tók ég mataræðið í gegn skömmu eftir áramótin en ólíkt flestum þeirra hef ég náð að halda mér á þrönga stígnum og það virðist stefna í árangur á sviði rúmmálsminnkunar.

Í lok Janúar klárast vinnan mín með unglingunum sem ég hef reynt að leiðbeina síðan í september og fæ ég enn og aftur tækifæri til að nota snilli mína, gáfur og yfirburði í nýjum og spennandi verkefnum.

 Svo er maður kominn í hljómsveit aftur eftir c.a tíu ára hlé og mig klæjar í fingurna við það að skrifa um það. Spennandi tímar svo sannarlega og ég verð duglegur við að reyna að koma bandinu á framfæri á þessum síðum.

Jæja. Þetta er nú svosem ekki merkileg bloggfærsla en hér er hún nú samt.

 Góðar stundir.

 


Meira og meira og stærra og meira

Heimurinn okkar er sífellt að minnka á meðan frelsi okkar til neyslu eykst.

Þar sem ég sat með heiminn við fingurgómana datt mér í hug nokkrir hlutir sem breyst hafa í gegnum tíðina. Þessi hugleiðing er komin til vegna þess að um þessar mundir er ég að vinna að kvikmyndaverkefni og er umrkingdur tölvum, spólum, myndavélum og hörðum diskum.

Þegar móðir mín, á sínum tíma, keypti sér fyrstu heimilistölvuna sína var harði diskurinn á henni heil hundrað megabæt. Slíkt hafði ekki sést áður og þótti geymslugeta tölvunnar ótrúleg. Tölvan hennar mömmu var með stærsta harða disk í hverfinu. Ég hélt að maður myndi aldrei í lífinu hafa þörf fyrir meira.

Núna umkringdur græum tel ég eitt og hálft terabæt af geymsluplássi, og vantar samt pláss.

Í skeifunni reis leikfangaversun, gríðarstór með mörgum hillum. Dót sem enst gæti mörgum póstnúmerum í margar kynslóðir. Nú fyrir skömmu opnaði toys´R´us í mörg þúsund fermetrum en það er ekki nóg því örfáum dögum síðar opnaði önnur dótabúð skammt frá sem er ennþá stærri og ber ennþá heimskulegra nafn.

Einu sinni fórum við strákarnir á hverjum laugardegi heim til vinar okkar, söfnuðumst þar saman og horfðum á heman þætti sem hann hafði tekið upp af stöð 2. Enginn okkar nema hann var með stöð 2 og fæstir áttu jafnvel myndbandstæki.   

Núna eru vel flestir með fleiri en tvö sjónvarpstæki á heimilinu og í þeim fjöldan allan af sjónvarpsstöðvum eða mörg margmiðlunartæki tengd við svo aldrei sé stund sem fari til spillis af díóðunum.

 Svo er það blessuð bílaeignin en það var eitt sinn tími þar sem eitt ökutæki var feikinóg fyrir eitt heimili, jafnvel þótt þar byggju fleiri en þrír. Nú á hver einasti maður með ökuréttindi á eigin bíl, og jafnvel nokkrir sem eru ekki einu sinni með prófið sitt.

Ég er alls ekki að segja að allar þessar breytingar séu slæmar, þvert á móti. Ég elska DVD, Playstation og Discovery.

Allir hefðu samt gott af því, sérstaklega í skammdeginu, að kveikja bara á kertum, setjast niður og spila ólsen með sínum nánustu. 

Svona old school.

 Góðar stundir.


Sumarbústaður, vetrardekk og Eyrarbakki

Þá er fyrsti snjór vetrarins kominn og farinn. Íslendingar slást í röðum dekkjaverkstæða, lesa og rífast yfir nokkrum negrastrákum og versla sér dót í tonnavís.

Ég og spúsan vorum hins vegar hámenningarleg og skelltum vetrardekkjunum undir helgina áður en slagsmál hófust og hröðuðum okkur í sumarbústað. Ekki seinna vænna, því að Siggi, vinur minn, stormur segir að sumarið sé alveg að verða búið.

Það var kærkomin tilbreyting að smella borgara á grillið í 7 gráðu frosti eftir að hafa soðið í heita pottinum svona rétt á meðan snjókoman gekk yfir.

Svo ætla ég að athuga hvort ég geti ekki sett inn eitt lag eða svo á síðuna; In your own world með stórsveitinni Royal Fortune. Ég gerði mér einmitt ferð til Eyrarbakka þar sem þessi prúðmenni héldu ágætis tónleika mér og Eirbekkingum til mikillar ánægju.

 Góðar Stundir


Fyrirsögn hvað?

Já góðan dag.. eða kvöld.

Er ekki venjan að skrifa eitt stykki svona "þá er maður kominn með blog.is síðu" blogg?

Það held ég nú!

Ég skal reyna að vera duglegur að smella einhverju hérna inn reglulega.

Haldið ykkur fast.

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband