Færsluflokkur: Kvikmyndir

Skemmtileg Keppni

Jæja þá eru úrslit í keppninni ljós og ég vann ekkert í þetta skiptið. Ég væri svekktur ef myndirnar sem komust áfram væru ekki svona góðar.

Stuttmyndin Hux vann keppnina og hreppti þar með sæti á Short Film Corner á Cannes. Þeir áttu þetta alveg skilið enda frábær mynd sem vann. Reyndar voru vel flestar myndirnar í keppninni mjög fínar. 

Þetta var engu að síður mjög skemmtilegt. Gaman að fá að sjá myndina sína aftur í bíó.

Svo er bara að taka þetta að ári. 


mbl.is Hux fékk fyrstu verðlaun í stuttmyndasamkeppni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppáhaldsmyndir: Baron Munchausen

Jæja. Þá er komið að meistaraverkinu The Adventures of Baron Munchausen eftir Terry Gilliam.

Adventures_of_baron_munchausen

 

Barónninn var reyndar ekki nýr af nálinni ´89 því hann kom fyrst fram 1785 í Baron Munchhausen's Narrative of his Marvellous Travels eftir Rudolf E. Raspe en þær sögur voru víst að einhverju leiti byggðar á þýskum athafnamanni sem hét Karl Friedrich Von Munchausen

Þessi var heldu ekki fyrsta kvikmyndin um Baróninn heldur sú fimmta.

Hinar komu s.k.v Wikipedia 1911, 1943, 1961 og svo frægust þeirra 1979. En sú var í leikstjórn rússans Mark Zakharov og var víst í dramatískari kantinum.

 

 En nóg um það!

 

 Mér verður alltaf svolítið hlýtt í hjartanu þegar ég hugsa um þegar mamma mín fór með mig 6 ára gamlan að sjá Baróninn í bíóinu í Hótel Valaskjálf á Egilstöðum.

Þvílík upplifun.
Lygalaupurinn Baron Munchausen, Berthold sem gat hlaupið hraðar en allt, dvergurinn Gustavus sem heyrði allt og var með örlítið stærri lungu en gengur og gerist.

Þessar persónur og allar hinar í ævintýraheimi myndarinnar sátu í mér í tíu ár eða þar til ég sá hana aftur... uppi í hillu í BT komna á DVD.

Ég stóðst ekki mátið og festi kaup á eintaki og maður lifandi hún eldist vel.

 Þá og í hvert skipti núna þegar ég set myndina í tækið breytist ég algjörlega í sex ára pjakkinn sem sá Munchausen ljóslifandi í Valaskjálf.

Frábært ævintýri sem fer með mann út um allan heim og meira að segja til tunglsins. 

Karlinn í tunglinu

 

 

 

 

 

Robin Williams sem Karlinn í Tunglinu. 


Uppáhaldsmyndir: Primer

Fyrir nokkrum árum var ég að vinna í videoleigu.

Eins og gerist og gengur me› videoleigunjerði sá ég nánast allar myndir sem voru gefnar út.

Eitt kvöldið fór ég heim með litla mynd sem heitir Primer.
Ég settist í sakleysi mínu fyrir framan tækið og setti myndina í gang.
77 mínútum seinna var búið að sprengja á mér höfuðið.
Ég hugsaði málið í smástund.
Svo horfði ég á hana aftur.
Það tók mig langan tíma að sofna en þegar ég vaknaði morguninn eftir horfði ég á myndina í þriðja skiptið.
Ég held að það hafi verið dagurinn sem ég ákvað að fara í kvikmyndaskóla.

 

Primer
Primer er lítil ódýr mynd sem kom út 2004 og var leikstýrt af Shane nokkrum Carruth.
Reyndar leikstýrði hann ekki bara myndinni heldur skrifaði, framleiddi, samdi tónlist, klippti og lék aðalhlutverk.
Myndin kostaði nánast ekkert í framleiðslu, 7000 dollara, og var einungis með fimm manna tökulið, en hefur unnið til fjölda verðlauna og eignast mikinn fjölda aðdáenda um heim allan.

Primer fjallar í stuttu máli um nokkra unga verkfræðinga sem að loknum vinnudegi hittast í bílskúr og búa til reyna þar að halda úti litlu tæknifyrirtæki.
Einn daginn komast þeir hins vegar að því að ein græjan sem þeir hafa smíðað gerir ekki alveg það sem hún átti að gera.

Ég get eiginlega ekki sagt mikið meira um Primer annað en það að hér er á ferðinni meistaraverk sem allir verða að sjá.

Primer á IMDB: http://imdb.com/title/tt0390384/ 

 


Uppáhaldsmyndir: Army of Darkness

Jæja. Ég ætla að herma aðeins eftir honum Hauki vini mínum og útlista hér á blogginu nokkrar af mínum uppáhaldsmyndum. Hann fyrirgefur mér vonandi hugmyndaþjófnaðinn.

 Fyrsta mynd á dagskrá er stórvirkið Army of Darkness eftir leikstjórann Sam Raimi.

Army of Darkness

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Sam Raimi er þó máski þekktastur fyrir að hafa staðið á bak við skelfilegar kvikmyndir um kóngulóardreng nokkurn, en förum ekki nánar út í það. 

Myndin er sjálfstætt framhald Evil Dead myndanna og skartar kaldhæðnismeistaranum Bruce Campbell í hlutverki seinheppnu and-hetjunnar Ash.

Myndin fjallar í stuttu máli um hvernig fyrrnefndum Ash er varpað aftur til ársins þrettánhundruð og þrúgusykur, beint inn í stríð milli góðs og ills. Hetjan okkar þarf síðan að sigrast á allskyns skrímslum og forynjum í baráttu sinni við að komast aftur til síns tíma. (með tilheyrandi einlínungum og sniðugheitum)

 Myndin kom út 1993 en fékk ekki mikla aðsókn enda bíóárið 1993 stútfullt af blokkbösterum eins og Schindler´s List og Groundhog Day. Army of Darkness hefur hinsvegar orðið afar vinsæl með árunum og á sér í dag stóran hóp aðdáenda sem fer sífellt stækkandi.

Ég sá Army of Darkness fyrst 1994 fyrir tilstilli stóra bróður míns (eins og svo margar aðrar góðar myndir) og breytti sú upplifun því hvernig ég hugsa um fantasy og grínmyndir.

Ég mæli eindregið með að þeir sem ekki hafa séð þessa ræmu kíki á hana sem fyrst og að þeir sem hafa séð hana sjái hana aftur á stundinni. 

Hér er svo stilka úr myndinni:

Gimmie some sugar baby! 


Stuttmynd

Þá er ég loksins búinn að smella inn lokaverkefninu mínu úr Kvikmyndaskólanum.

Myndin ber heitið Smásaga og skartar þeim Sæmundi S. Viktorssyni, Ástrósu Þórjónsdóttur og Ágústi Guðmundssyni í aðalhlutverkum.

Myndin hlaut útskriftarverðlaun kvikmyndaskólans fyrir bestu myndvinnslu og sá undirritaður um handritasmíð, leikstjórn, myndatöku, klippingu, tónlist og veitingar.

Smellið nú á hlekkinn hér til hliðar og njótið dýrðarinnar í þær fimm mínútur sem myndin telur.

 

Ekki sakar heldur að eyða hálfri mínútu eða svo í að skrifa skarplega athugasemd um gripinn þegar áhorfi er lokið.

kv. -Maggi 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband