Færsluflokkur: Ferðalög
23.7.2008 | 13:56
Eine Reise nach Europa
Komið öll sæl og blessuð. Ég ætla að byrja á því að biðjast forláts fyrir að hafa ekki skrifað neitt í langan tíma því ég veit að það voru nokkrir ekki alveg nógu sáttir við Æon Flux færsluna mína og biðu spenntir eftir Rambo 4.
Ég ætla hins vegar ekki að skrifa um þá stórkostlegu mynd í þetta skiptið. Jú sjáið til ég ætla að flýja land og halda á slóðir frænda okkar í Þýskalandi. Þannig er mál með vexti að þar í landi er árlega haldin mikil og stór hátíð til heiðurs þungarokkinu góða og er ætlunin að hylla það og hlýða á nokkra af helstu talsmönnum þess.
Ferðin okkar byrjar í Berlín þar sem bjór verður að öllum líkindum drukkin og schnitzel etið. Svo liggur leiðin eitthvað þvers og kruss um Þýskaland með viðkomu á rokkráðstefnunni Wacken Open Air.
Að lokum er haldið til Svíþjóðar en þar er einn Íslendingur sem ég þekki í miklum víking. Hann er smátt og smátt að sópa að sér öllu sem verðmætt má teljast í Stokkhólmi og hyggst nú kvænast fegursta fljóði landsins.
Ég þarf víst að vera "svaramaður" þó ég viti ekki alveg hvað felst í því...mig grunar að ég eigi að standa í kirkjudyrunum með sverð og höggva niður sænska vonbiðla sem gætu reynt að koma í veg fyrir brúðkaupið... en ég veit það svosem ekki.
Auf Wiedersehen
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)