Jón og strippið.

Jón er góður maður. Hann er réttsýnn, sanngjarn og ötull talsmaður fyrir jafnrétti kynjanna.

Jón fer sáttur að sofa í kvöld. Hann hefur staðfastur stutt flokkinn sinn í mikilvægu þjóðþrifamáli nú í mörg ár og loksins, loksins náðist það í gegn.

Nektardans verður bannaður í sumar.

Jóni hryllir við tilhugsuninni um grey stelpurnar sem hríslast uppi á sviði fyrir framan einhverja ógeðslega karla. Svo þrífst á þessum stöðum fíkniefnasala, vændi, mansal og fleira misjafnt.

Reyndar hefur Jón aldrei stigið fæti inn á strippstað en hann hefur margoft mætt á atburði tengda þeim. Hann hefur heldur aldrei talað við neinn sem unnið hefur á strippstað.

Hann reyndi jú einu sinni að tala við nokkrar stúlkur sem voru á leið til vinnu.

Hann og nokkrir aðgerðarsinnar úr sínum flokki höfðu staðsett sig fyrir utan strippstað í miðborginni og voru að dreifa bæklingum um mansal og mannréttindi. Stúlkurnar sem hann ætlaði að tala við voru ekkert mjög móttækilegar fyrir boðskapnum sem hann var að dreifa og sá Jón það sem augljóst merki kúgunar.

Stúlkurnar voru eflaust skíthræddar um að atvinnuveitandi þeirra myndi refsa þeim fyrir að tala við Jón. Fangar melludólga og fíkniefnabaróna sem niðurlægja þær til að hagnast sjálfir.

Eða hvað?

Höfðu þessir strippstaðir ekki starfsleyfi?

Fyrst að staðirnir voru opnir og opinberir, var þá ekki eftirlit með því sem fór þar fram eins og á öðrum skemmtistöðum?

Höfðu borist ábendingar og kvartanir undan ólöglegu eða misjöfnu athæfi á stöðunum?

Höfðu eigendur staðanna verið ásakaðir, rannsakaðir, kærðir eða dæmdir fyrir eitthvað ólöglegt?

Stóð starfsfólk þessara staða ekki í skilum á skatti?

Var starfsfólkið ólöglega flutt til landsins?

Var starfsfólki staðanna haldið nauðugu og selt í kynlífs eða aðra þrælkun?

Fékk starfsfólk staðanna ekki borgað fyrir vinnu sína?

Var starfsfólkinu ekki frjálst að segja upp sinni vinnu og hætta?

Er það ekki hvers og eins að ákveða hvort honum þykir hann niðurlægður?

Það er mörgum sem þykir illa borguð afgreiðslustörf með lélegan vinnutíma niðurlægjandi.

Öðrum finnst það fínt og gera gott úr vinnu sinni. Fullt af fólki vinnur skítadjobb til að þóknast öðru fólki og fá greitt fyrir.

Eigum við að banna þær starfsstéttir líka?

Nú getur Jón sofið vel á nóttunni því hann veit að lögreglan og ríkið þurfa ekki að halda úti eftirliti með nektardansstöðum.

Hann þarf ekki að hafa áhyggjur af því að lögráða einstaklingar ákveði sjálfir hvort þeir kjósi að vinna við nektardans.

Og hann getur svo sannarlega sleppt því að hafa áhyggjur af því að fullorðið fólk sé að dandalast á strípibúllum allar nætur.

Ef það er bannað þá er það ekki til.

Er það ekki?

Nú getur duglegt athafnafólk hugsað sér gott til glóðarinnar. Nú þarf ekki að pæla í því hvort strippararnir séu með starfsleyfi eða ekki. Nú þarf ekki að borga þeim neitt frekar en maður vill og hvað þá að greiða af launum skatta. Ríkið er búinn að búa til verndaðan vinnustað fyrir dólga sem ekki lengur þurfa að hafa áhyggjur af því að yfirvöld séu að skipta sér af atvinnurekstrinum sínum.

En snýst þetta mál um stripp?

Snýst þetta ekki frekar um frelsi einstaklingsins til að starfa við það sem hann kýs? Er það ekki fullorðið fólk sem ákveður sjálft hvort það vill notfæra sér þjónustu fyrirtækis eða ekki?

Ef það er eftirspurn þá mun ávallt vera framboð.

Er ekki betra að hafa spilin uppi á borðinu í stað þess að búa til undirheimastarfsemi sem ekki þarf að fylgja neinum reglum?

En Jón er ánægður með dagsverkið og mun sofa vel í nótt. Hann mun vakna ferskur á morgun að takast á við næsta verkefni.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góður póstur. *Þumlar þráðbeint upp í loft*

Steindór H. (IP-tala skráð) 24.3.2010 kl. 21:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband